Sunday, December 7, 2008

Eldhúsraunir

Eins og eflaust einhverjir vita er íbúðarfélagi minn kínverskur að uppruna en hefur búið hér í Englandi frá sex ára aldri. Líkt og öllum alvöru kínverjum sæmir sýður hann hrísgrjón og á til þess verks forláta hrísgrjónasuðumaskínu sem hann sýndi mér einu sinni hvernig á að nota. Þar sem ég ákvað að elda mér tælenskan mat í kvöld, þar sem að hrísgrjón voru meðlætið, ákvað ég að notast við maskínuna í stað þess að sjóða grjónin í potti sem getur verið algjör kvöl pína.

Þegar ég ætlaði að kveikja á vélinni kom hins vegar babb í bátinn. Allar merkingar á henni eru að sjálfsögðu á kínversku (sem ég les nb. ekki) og þar sem íbúðarfélaginn fór til Kína í gær þurfti ég að treysta á lukkuna í vali á stillingu. Lukkan brást mér hins vegar í þetta skiptið, og í staðinn fyrir að velsoðin hrísgrjónin væru tilbúin eftir korter tók á móti mér ylvolgt vatn með ósoðnum hrísgrjónum, ég hafði s.s. valið stillinguna sem heldur grjónunum heitum eftir suðu. Það liggur við að ég tússi á maskínuna leiðbeiningar á íslensku svo þetta hendi mig ekki aftur...